Agnar Reidar golfmaður ársins

Ný stjórn tók við störfum á aðalfundi Golfklúbbsins Flúða um síðustu helgi og veitt voru ýmis verðlaun fyrir mót sumarsins 2010.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá hætti Karl Gunnlaugsson sem formaður eftir 25 ára setu. Pétur Skarphéðinsson gaf heldur ekki kost á sér áfram en hann hefur verið ritari klúbbins um langt árabil.

Nýja stjórn GF skipa Ragnar Pálsson, formaður, Edda Svavarsdóttir, varaformaður, Katrín Ólöf Ásvaldsdóttir, gjaldkeri, Unnsteinn Eggertsson, ritari og Kristján Geir Guðmundsson, meðstjórnandi.

Mæting á fundinn var sú mesta frá upphafi en um 60 manns sóttu hann. Hrunamenn binda miklar vonir við nýja Hvítárbrú sem gefur kylfingum vestan Hvítár betri möguleika á að sækja Selsvöll.

Fjöldi verðlauna var afhentur á mótinu. Klúbbmeistari 2010 og golfmaður ársins var Agnar Reidar Róbertsson, bikarhafi var Tómas Tryggvason og starfsbikarinn hlaut fráfarandi formaður, Karl Gunnlaugsson.

Fyrri greinBjörgunarsveitir fundu strokupilt
Næsta greinSumartónleikar tilnefndir til Eyrarrósarinnar 2011