Aðstandendur Naflahlaupsins afhentu starfsemi sjúkraflutninga í Rangárvallasýslu nýlega styrk að upphæð 30.000 kr. sem safnaðist í hlaupinu í sumar.
Það voru Rangárþing eystra, Sláturfélag Suðurlands, ZoOn og Hótel Fljótshlíð sem styrktu hlaupið en auk þess söfnuðust áheit frá hlaupurunum.
Björgunarsveitin Dagrenning sá um tímatöku og vatnsstöðvar á meðan á hlaupinu stóð.
Naflahlaupið var haldið í annað sinn nú í sumar og fór þátttaka fram úr björtustu vonum framkvæmdaaðila. Um 70 manns skráðu sig til leiks. Hægt var að velja um þrjár vegalengdir; 21 km, 10 og 5 km.
Veitt voru verðlaun fyrir lengstu leið og í karla flokki sigraði Örvar Ólafsson, gömul frjálsíþróttakempa frá Stóru-Hildisey í Landeyjum, og í kvennaflokki Guðbjörg Margrét Björnsdóttir sem kom fyrst í mark kvenna, en hún sigraði jafnframt í Laugavegshlaupinu í sumar.
Framkvæmdastjórn Naflahlaupsins vill senda styrktaraðilum og velunnurum hlaupsins bestu þakkir fyrir veittan stuðning.