Körfuknattleiksdeild Hamars mun ekki endurnýja þjálfarasamning Ágústs Björgvinssonar sem þjálfað hefur karla og kvennalið Hamars undanfarin ár.
Lárus Ingi Friðfinnsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hamars, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í kvöld. Hann segir ákvörðunina vera tekna í mesta bróðerni og Ágústi séu þökkuð frábær störf í þágu félagsins.
Ágúst hefur þjálfað karlalið Hamars undanfarin þrjú og hálft keppnistímabil en hann tók við liðinu af Pétri Ingvarssyni á miðju keppnistímabili veturinn 2007-2008. Síðan þá hefur Hamar farið niður í 1. deild og upp aftur en liðið féll á nýjan leik niður í 1. deild nú í vor.
Ágúst hefur stýrt kvennaliði Hamars undanfarin tvö keppnistímabil og hefur liðið tekið stórstígum framförum undir hans stjórn. Hamar lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili og varð deildarmeistari kvenna í vetur.
Hamarsmenn eru byrjaðir að leita að nýjum þjálfurum og segir Lárus að tveir þjálfarar verði ráðnir í stað Ágústs, einn fyrir hvort lið.