Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, var ánægður með sitt lið eftir sigurinn á Keflavík. Hann segir að liðið hefði átt að klára rimmuna fyrr en eftir sigur í fyrstu viðureigninni vann Keflavík tvo leiki í röð.
“Það er fyrir okkar klaufaskap að við kláruðum einvígið ekki fyrr. Við spiluðum skelfilega í leik tvö og í leik þrjú vorum við algjörlega úti á túni í vörninni. Þetta er stórt skref fyrir Hamar að stíga eftir aðeins fjögur ár í efstu deild. Við vorum í úrslitakeppni í fyrsta skipti í fyrra og nú tökum við þetta skrefinu lengra,” sagði Ágúst í samtali við sunnlenska.is.
“Við byrjuðum mjög vel í kvöld en síðan fórum við bara að bíða eftir því að leikurinn væri búinn og þær komust inn í leikinn aftur. Ég sagði við stelpurnar í hálfleik að þær ættu að njóta þess að vera í þeirri stöðu að spila oddaleik fyrir framan fullt hús af fólki og þær fundu gleðina í síðari hálfleik.”
Hamarsþjálfaranum skeggprúða lýst vel á komandi einvígi við KR. “Okkur bíður mjög verðugt verkefni, KR hefur sýnt mestan stöðugleika í vetur á meðan við höfum verið mjög sveiflukenndar. Ég vil meina að við höfum verið með besta liðið í deildinni á tímabili en á öðrum tímapunkti spilum við þannig að við hefðum ekki átt heima í úrslitakeppninni. Ég býst við jöfnu einvígi, KR spilar mjög stíft, eins og Keflavík gerði hér í kvöld og það kæmi mér ekki á óvart að einvígið færi í fimm leiki,” sagði Ágúst að lokum.