
Í dag var dregið í 16-liða og 8-liða úrslit bikarkeppni karla og kvenna í handbolta og voru öll sunnlensku liðin í pottinum.
Karlalið Selfoss á enn eftir að leika gegn Haukum í 32-liða úrslitum en sá leikur fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði þann 3. apríl. Sigurliðið úr þeim leik mætir FH á útivelli í 16-liða úrslitum sem leikin verða 8. og 9. apríl. Í 8-liða úrslitunum munu Selfoss, Haukar eða FH síðan mæta annað hvort Víkingi eða Val á útivelli og verður sá leikur 10. eða 11. apríl.
Kvennalið Selfoss tekur á móti FH í virkilega áhugaverðri viðureign í 16-liða úrslitum og sigurliðið í þeim leik mun mæta Víkingi á útivelli í 8-liða úrslitum. Sextán liða úrslitin verða leikin 8. og 9. apríl og átta liða úrslitin tveimur dögum síðar.
Það verður síðan boðið upp á stórleik í Hleðsluhöllinni í 16-liða úrslitum þegar utandeildarlið Mílunnar tekur á móti 1. deildarliði Fjölnis 8. eða 9. apríl. Sigurliðið úr þeim leik heimsækir annað hvort Aftureldingu eða ÍBV í 8-liða úrslitunum.