„Þetta verður vonandi ævintýri,“ segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta sem mætir Azoty-Puławy í seinni leik liðanna í 3. umferð EHF-bikarsins á morgun, laugardag kl. 18:00 í Hleðsluhöllinni.
Selfoss tapaði fyrri leiknum með sjö marka mun, 33-26, í Póllandi um síðustu helgi og Patrekur segir að Azoty-Puławy hafi spilað svipað og hann bjóst við.
„Þetta er hörkulið og reynslumikið lið. Ég þekkti auðvitað fyrir Marko Panic og Nikola Prce, skytturnar hjá þeim. Ég hef oft séð þá spila með landsliði Bosníu á móti Austurríki og þeir hafa verið lykilmenn þar. Panic átti magnaðan leik á móti okkur um síðustu helgi, ég hef ekki séð hann svona góðan áður. Hann getur kastað jafn vel með vinstri og hægri. Þeir eru með þunga gæja í miðjublokkinni og Pólverjarnir í þessu liði eru líka mjög góðir, t.d. Lukasz Rogulski og Piotr Maslowski. Þeir eru með tvo menn í hverri stöðu, alvöru atvinnumannalið og með töluvert meira fjármagn en Selfoss. Þeir spiluðu hefðbundna 6-0 vörn en bakverðirnir þeirra náðu að þvinga okkur mikið inn á miðsvæðið. Það var ekki margt sem kom mér á óvart, nema kannski Marko Panic, sem átti mjög góðan leik,“ sagði Patrekur í samtali við sunnlenska.is.
Hvað þurfið þið að gera til þess að vinna upp þennan mun?
„Við þurfum að skora tveimur mörkum meira en þeir á hverju korteri og skipta leiknum í fjóra hluta… fjórum sinnum fimmtán er sextíu, er það ekki? Við setjum okkur markmið í stuttum bútum. Við þurfum vörnina sem við spiluðum á móti Fram í vikunni, ein besta vörn sem við höfum spilað í vetur. Það komu mistök en menn voru tilbúnir að leiðrétta það. Þessi ákefð og áræðni er það sem við þurfum. Við þurfum markmennina okkar í 40% markvörslu og sóknarlega þurfum við að þora, en samt megum við alls ekki spila of stuttar sóknir. Við megum ekki flýta okkur of mikið því þá hlaupa þeir bara yfir okkur. Það þurfa allir að eiga sinn besta leik og ef við náum líkamstjáningunni sem var á móti Fram, þá er ég bjartsýnn,“ sagði Patrekur ennfremur og bætti við að stuðningur áhorfenda skipti líka lykilmáli.
„Ég vona að það verði fullt hús og meirihlutinn Selfyssingar. Við höfum fengið góðan stuðning í vetur og í fyrra og það er ómetanlegt og gefur liðinu meiri kraft. Ef það gengur illa þá er gott að hafa fólkið með sér. Sjö marka munur þarf ekki að vera svo mikið í þessari keppni. Það er ennþá möguleiki fyrir okkur og annað eins hefur nú gerst. Strákarnir þurfa ekkert að vera að fylgjast með töflunni í leiknum. Við þurfum bara að gefa allt í þetta og trúa á þetta. Við vitum að við erum góðir, við höfum spilað svo marga góða leiki og ég veit að allir leikmennirnir verða 100% mótiveraðir á morgun,“ sagði Patrekur að lokum.