Hamar náði að knýja fram sigur eftir dramatískar lokamínútur í leiknum gegn FSu í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 83-87.
FSu liðið var miklu betra í fyrri hálfleik en bæði lið voru að gera mistök sem skrifast á taugaspennu og skotnýtingin var slæm á köflum, sérstaklega hjá Hvergerðingum. Staðan í hálfleik var 42-33.
Í þriðja leikhluta virtust Selfyssingar ætla að landa auðveldum sigri því Hvergerðingar gáfu eftir undir lok leikhlutans og leyfðu FSu ítrekað að skora auðveldar körfur. Munurinn var orðinn sautján stig, 70-53, þegar Bragi Bjarnason, þjálfari Hamars, barði sína menn loksins í gang. Hann reif ekki bara kjaft á bekknum heldur leiddi sitt lið einnig áfram innan vallar með áræðni og augljósum sigurvilja.
Það fór líka svo að Hamar sneri leiknum sér í vil með sextán stigum í röð og þegar sjö og hálf mínúta var eftir var staðan orðin 70-69. FSu-liðið var komið í villuvandræði með tvo stóra menn utan vallar en liðið átti engin svör í síðasta fjórðungnum þar sem það skoraði aðeins 13 stig gegn 29 stigum Hamars. Bragi kom Hamri yfir þegar 51 sekúnda var eftir og skoraði svo úr þremur vítaskotum á lokasekúndunum á meðan sóknir FSu klikkuðu.
„Það var sálfræði í gangi“
„Þetta var akkúrat eins og Derbyleikir eiga að vera. Bæði lið mættu brjáluð til leiks, það var sálfræði í gangi, menn voru að tala saman og ýta og þannig á það að vera í svona leikjum. Við erum að æfa fyrir leiki eins og þessa,“ sagði Bragi Bjarnason, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„FSu liðið má eiga það að þeir léku okkur grátt í fyrri hálfleik. Við töluðum meðal annars um frákastabaráttuna í hálfleik og stóðum okkur betur í baráttunni undir körfunni í seinni hálfleik, sérstaklega í sóknarfráköstunum og þá datt þetta inn,“ sagði Bragi.
„Við þurftum að ná upp níu stigum í seinni hálfleik og settum mikla orku í það. Við spiluðum á fáum mönnum í dag þannig að við misstum aðeins dampinn þegar leið á 3. leikhluta. En við mættum brjálaðir í byrjun fjórða og kannski small reynslan inn í lokin þegar við vorum aðeins yfirvegaðari á meðan þeir reyndu erfiðari skot – eins og við höfðum verið að gera í fyrri hálfleik.“
Hamar á enn möguleika á sæti í úrslitakeppninni þrátt fyrir að vera undir í innbyrðis leikjum á móti Breiðablik sem nú situr í 5. sæti, en liðin hafa jafnmörg stig. Bragi segir markmið Hamarsliðsins skýrt. „Við ætlum að klára þá leiki sem við eigum eftir og þá erum við í séns. Liðið er að toppa á réttum tíma.“
„Þurfum kraftaverk“
Arnþór Tryggvason, fyrirliði FSu, var mjög svekktur í leikslok. „Þetta var gott framan af og við erum komnir sautján stigum yfir í 3. leikhluta en svo köstuðum við þessu frá okkur í lokin. Ég og Svavar vorum komnir með fimm villur og þá erum við að spila á fjórum litlum og kunnum það ekki. Þetta er mjög svekkjandi, við þurfum nánast kraftaverk til þess að komast í 5. sætið,“ sagði Arnþór í samtali við sunnlenska.is en FSu þarf að vinna síðustu tvo leikina og treysta á að Hamar tapi báðum sínum leikjum og Breiðablik einum.
Collin Pryor og Erlendur Stefánsson skoruðu báðir 21 stig fyrir FSu, Ari Gylfason 14, Hlynur Hreinsson 11, Svavar Stefánsson 7, Geir Helgason 5 og Arnþór Tryggvason 4 auk 12 frákasta.
Hjá Hamri var Danero Thomas með 28 stig, 15 fráköst og 3 varin skot. Bragi Bjarnason skoraði 17 stig, Snorri Þorvaldsson 13, Bjarni Rúnar Lárusson 11, Aron Freyr Eyjólfsson 9, Halldór Gunnar Jónsson 8 og Bjartmar Halldórsson 1.