Selfyssingar töpuðu sannfærandi fyrir Akureyri í kvöld, 28-36, í N1-deild karla í handbolta.
Það voru heimamenn sem byrjuðu betur en Selfoss komst í 4-1 áður en Akureyri jafnaði, 6-6. Jafnræði var með liðunum framundir lok fyrri hálfleiks þegar gestirnir náðu góðum kafla og leiddu í hálfleik, 13-16.
Í seinni hálfleik voru gestirnir mun meira sannfærandi og forskot þeirra jókst jafnt og þétt. Því geta þeir þakkað Sveinbirni Péturssyni, markverði, sem varði frábærlega í leiknum. Sóknir Selfyssinga brotnuðu ýmist á honum eða vörninni og í kjölfarið fengu gestirnir fjölda hraðaupphlaupa. Akureyri skoraði 20 mörk af 36 úr hraðaupphlaupum í leiknum.
Munurinn varð mestur 9 mörk, 20-29, en Selfoss minnkaði muninn í 6 mörk, 25-31, áður en gestirnir tóku aftur við sér á síðustu mínútum leiksins.
Ragnar Jóhannsson skoraði 6 mörk fyrir Selfoss en Akureyringar einbeittu sér að því að loka á hann. Atli Kristinsson spilaði seinni hálfleikinn og skoraði sömuleiðis 6 mörk. Andrius Zigelis og Milan Ivancev eru að komast inn í leik liðsins þó ýmislegt sé óunnið. Þeir skoruðu báðir fjögur mörk, eins og Guðjón Drengsson. Einar Héðinsson skoraði 2 mörk og þeir Atli Hjörvar Einarsson og Helgi Héðinsson voru með sitt markið hvor.
Helgi Hlynsson varði 11/1 skot í leiknum og Birkir Fannar Bragason 5. Birkir lék aðeins síðustu 20 mínútur leiksins þar sem hann er meiddur.