Þau stórtíðindi urðu í frjálsíþróttaheiminum á dögunum að sitjandi þingmaður setti héraðsmet í frjálsíþróttum. Fróðir menn segja að líklega hafi það ekki gerst frá landnámi.
Þar var á ferðinni 8. þingmaður Suðurkjördæmis, Vökumaðurinn Haraldur Einarsson frá Urriðafossi. Þann 21. desember bætti hann HSK metið í 300 m hlaupi innanhúss á Jólamóti ÍR þegar hann kom annar í mark á 35,98 sek. Haraldur bætti svo enn í metasafnið á Áramóti Fjölnis nú um helgina þegar hann bætti eigið met í 200 m hlaupi innanhúss, þegar hann kom annar í mark á 22,90 sek.
Fleiri keppendur af HSK svæðinu stóðu sig vel á Áramóti Fjölnis og má með sanni segja að metaregn hafi orðið nú í lok árs.
Fannar Yngvi Rafnarson, Umf. Þór, bætti héraðsmetið í þremur flokkum þegar hann hljóp 200 m hlaup á 24,05. Fannar Yngvi er 15 ára gamall en tíminn er met í flokki 15 ára pilta, 16-17 ára pilta og 18-19 ára pilta. Fannar Yngvi bætti einnig héraðsmetið í 15 ára piltaflokki þegar hann stökk 6,16 m í langstökki. Þá bætti hann persónulega árangur sinn í 60 m hlaupi, hljóp á 7,51 sek en HSK metið er 7,47 sek.
Styrmir Dan Steinunnarson, Umf. Þór, varð í 1.-2. sæti í hástökki þar sem hann stökk 1,80 m og rétt felldi 1,85 m. Þá bætti hann sig í langstökki þegar hann stökk 5,85 m.
Sólveig Þóra Þorsteinsdóttir, 11 ára stúlka úr Umf. Þór, keppti í hástökki og stökk 1,30 m. Hún fór að finna til í mjöðminni í upphitun þannig hún náði sér ekki alveg á strik en hún setti einmitt HSK met í greininni á Silfurleikum ÍR í fyrr í vetur þegar hún stökk 1,43 m.
Kolbeinn Loftsson, 11 ára piltur úr Umf. Selfoss, setti HSK met í hástökki í sínum aldursflokki þegar hann vippaði sér yfir 1,50 m. Hann átti svo góðar tilraunir við 1,55 m.
Að sögn Engilberts Olgeirssonar, framkvæmdastjóra HSK, eru HSK metin innanhúss í ár orðin 40 talsins og er ekki útséð með það ennþá hvort þau verði fleiri.