Dagný Brynjarsdóttir er ekki eini leikmaðurinn sem fer frá Umf. Selfoss í þýsku bundesliguna í knattspyrnu því markmaðurinn Alexa Gaul hefur samið við SC Sand.
Alexa var einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra og var hetja Selfossliðsins í Borgunarbikarnum þar sem hún varði hverja vítaspyrnuna á fætur annarri í leikjum gegn ÍBV og Fylki.
Hún hefur ekki verið á samningi frá því að hún yfirgaf Selfossliðið síðasta haust en í samtali við sunnlenska.is sagði hún að hún hafi verið dugleg að halda sér í þjálfun heima í Bandaríkjunum en hún æfði meðal annars með Bryan bróður sínum sem er atvinnumaður í knattspyrnu.
Þegar tækifærið bauðst til að spila með þýska liðinu stökk hún til og segist ánægð með aðstæðurnar hjá félaginu. SC Sand hefur aðsetur í borginni Kehl á bökkum Rínar. “Ég kann vel við mig í Þýskalandi og það verður spennandi að mæta Dagnýju og Bayern liðinu í lok mars. Ég hlakka mikið til þess,” sagði Alexa.
SC Sand er í harðri baráttu í 10. sæti bundesligunnar, einu sæti fyrir ofan fallsæti, með þriggja stiga forskot á Duisburg. Dagný er hins vegar í toppbaráttunni með Bayern München sem hefur 33 stig í 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá toppliði Wolfsburg.