Heimsmeistaramótið í liðakeppni í motocross, MXoN, var haldið í Ernée í Frakklandi helgina 6.-8. október. Íslenska liðið var skipað þeim Mána Frey Péturssyni, Eið Orra Pálmasyni og Selfyssingnum Alexander Adam Kuc en þetta er yngsta landslið sem Ísland hefur sent á MXoN.
Á MXoN keppa bestu motocross ökumenn heims við krefjandi aðstæður en um 100 þúsund áhorfendur mættu til að fylgjast með herlegheitunum og var stemningin rosaleg.
Á laugardaginum voru þrír undanriðlar þar sem keppt var um sæti í úrslitakeppninni á sunnudeginum. Ísland endaði daginn á að vinna frábæran sigur í C-finals eftir harða baráttu við Pólland og tryggðu þeir sér þannig sæti í B-finals á sunnudeginum.
Heppnin var ekki með íslensku strákunum í B-finals en Máni Freyr og Eiður Orri féllu báðir úr leik og var því Alexander Adam sá eini sem kláraði keppnina fyrir Íslands hönd og stóð sig frábærlega vel. Alexander endaði í 25. sæti en Ísland hafnaði í 31. sæti á mótinu af 37 löndum sem skráð voru til leiks.