Alexander skellti í lás og skoraði þrjú

Alexander Hrafnkelsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss vann magnaðan sigur á Kórdrengjum í Grill-66 deild karla í handbolta, 33-22, á útivelli í kvöld.

Selfoss-U leiddi allan leikinn, fyrsta korterið með einu til tveimur mörkum en undir lok fyrri hálfleiks jókst munurinn og staðan var 16-12 í hálfleik, Selfyssingum í vil.

Sigur Selfoss var aldrei í hættu í seinni hálfleiknum, vínrauðu ungmennin réðu lögum og lofum og unnu að lokum sanngjarnan ellefu marka sigur.

Guðjón Baldur Ómarsson og Haukur Páll Hallgrímsson voru markahæstir Selfyssinga með 5 mörk, Gunnar Flosi Grétarsson skoraði 4, Árni Ísleifsson 4/3, Sölvi Svavarsson, Hans Jörgen Ólafsson og markvörðurinn Alexander Hrafnkelsson skoruðu allir 3 mörk og þeir Sigurður Snær Sigurjónsson, Elvar Elí Hallgrímsson og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu allir 2.

Auk þess að skora 3 mörk þá varði Alexander 19/1 skot í marki Selfoss og var með 54% markvörslu. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 2 skot og var með 25% markvörslu.

Selfoss-U er nú í 5. sæti deildarinnar með 14 stig en Kórdrengir eru í 7. sæti með 9 stig.

Fyrri greinDagur Fannar ráðinn sóknarprestur í Skálholti
Næsta greinEldingaveður seinkar viðgerðum á raflínum