Alexandra Eir valin fimleikamaður ársins

Í gær fór fram innanfélagsmót í almennum fimleikum hjá fimleikadeild Umf. Stokkseyrar þar sem alls fjörutíu keppendur tóku þátt.

Yngsti hópur félagsins tók þátt í svokallaðri sýningarkeppni þar sem allir voru sigurvegarar og að lokum fengu þau bikar og titilinn hópur ársins.

Í aldursflokkinum 9-12 ára var keppt til verðlauna í tveimur erfiðleikaflokkum og var það Sigurbjörg Guðmundsdóttir sem náði besta samanlagða árangrinum í flokki Höfrunga, og Petra Lind Grétarsdóttir í flokki Álfta.

Alexandra Eir Grétarsdóttir varð hlutskörpust í flokki 13 – 16 ára og fékk hún jafnframt titilinn fimleikamaður ársins. Viktoría Rós Jóhannsdóttir var valinn félagi ársins og Vanda Jónasardóttir fékk verðlaun fyrir framfarir og ástundun.

Að sögn Tinnu Bjargar Kristinsdóttur, yfirþjálfara deildarinnar, voru aðstandendur mótsins mjög ánægðir með hvernig til tókst og vilja þeir koma fram þökkum til styrktaraðila mótsins, en þeir voru Shell-skálinn á Stokkseyri, Gísli ehf. og Fjöruborðið Stokkseyri.

Mótið var í senn lokapunktur og uppskeruhátíð vetrarins og óskar Fimleikadeildin öllum gleðilegs sumars.

Fyrri greinML flaggar Grænfána öðru sinni
Næsta greinHéraðsdómur Suðurlands í 2. sæti