Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss, skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.
Undirskriftin fór fram á iðagrænum JÁVERK-vellinum eftir 1:0 sigur Selfoss á ÍBV í lokaumferð Pepsideildarinnar.
Alfreð tók við kvennaliði Selfoss eftir að það féll úr Pepsideildinni árið 2016, stýrði því beina leið aftur upp í Pepsideildina. Nýliðar Selfoss náðu mjög góðum árangri í sumar og höfnuðu í 6. sæti deildarinnar með 20 stig.
„Á þessu tímabili höfum við verið að gefa mörgum ungum heimastelpum sénsinn og það er það sem er skemmtilegt, að byggja á því sem við höfum hér. Það er vínrauði þráðurinn hjá okkur. Ég er ánægður með starfsumhverfið, gott starfsfólk, þjálfunarkúltúrinn er góður og það er ótrúlega vel haldið utan um kvennaliðið. Það eru margir sem koma þar að, bæði á hliðarlínunni og bakvið tjöldin. Ég stefni á að gera betur með þetta lið næsta sumar, það tekur tíma að byggja upp gott lið og ég fæ tíma til þess og er ánægður með það,“ sagði Alfreð að undirrituninni lokinni.