Sex keppendur frá Ungmennafélagi Selfoss tóku þátt í Vormóti Fjölnis í frjálsum íþróttum sem haldið var í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld. Þetta var fyrsta stóra frjálsíþróttamót sumarsins á Íslandi eftir samkomubann.
Keppendur Selfoss stóðu sig vel á mótinu, náðu bætingum í mörgum greinum og unnu til þriggja gullverðlauna, þriggja silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna. Aðstæður voru nokkuð krefjandi en kaldur vorvindur lék um keppendur og til dæmis náðust ekki staðfestir tímar í spretthlaupum þar sem meðvindur var of mikill.
Álfrún Diljá Kristínardóttir setti tvö HSK met á mótinu en hún kastaði 4 kg kvennasleggju 30,11 m sem er héraðsmet bæði í flokki 14 ára og flokki 15 ára stúlkna. Gamla metið í 14 ára flokknum átti Hildur Helga Einarsdóttir, 22,30 m og í 15 ára flokknum Jónína Guðný Jóhannsdóttir, 29,35 m.
Sleggjukast kvenna var aukagrein á mótinu þar sem Álfrún atti kappi við Íslandsmeistara kvenna, Vigdísi Jónsdóttur, en Vigdís gerði sér lítið fyrir og bætti Íslandsmetið í greininni í kvöld, kastaði 62,38 metra.
Ísold Assa Guðmundsdóttir sigraði í kúluvarpi stúlkna 12-13 ára, kastaði 10 metra slétta og hún vann bronsverðlaun í langstökki, stökk 4,42 m. Í sama flokki vann Lára Hlín Kjartansdóttir silfur í kúluvarpi, kastaði 9,25 m og Eydís Arna Birgisdóttir vann bronsverðlaun í 100 m hlaupi, á tímanum 13,81 sek.
Bryndís Embla Einarsdóttir sigraði í kúluvarpi í flokki stúlkna 11 ára, kastaði 7,24 m og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir sigraði í 800 m hlaupi í flokki 14-15 ára stúlkna á tímanum 3:02,75 mín. Álfrún Diljá fékk bronsið í sama hlaupi á tímanum 3:08,82 mín og vann að auki silfurverðlaun í kúluvarpi, kastaði 10,12 m.