Álfrún Diljá Kristínardóttir, fjórtán ára frjálsíþróttakona úr Umf. Selfoss, setti samtals 30 héraðsmet í þremur aldursflokkum á síðasta ári.
Enginn keppandi setti fleiri HSK-met en Álfrún Diljá, en sjö þessara meta voru einnig Íslandsmet. Flest héraðsmetin setti Álfrún í sleggjukasti, en einnig í lóðkasti og kastþraut.
Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, setti samtals 23 HSK-met í flokki 18-19 ára, átján þeirra voru einstaklingsmet og þá setti hann fimm boðhlaupsmet með félögum sínum. Sindri Freyr Seim Sigurðsson úr Umf. Heklu, sem keppti í 16-17 ára flokki, kom næstur með samtals 17 met, fimm þeirra voru í boðhlaupum. Eva María Baldursdóttir, keppandi Umf. Selfoss í flokki 16-17 ára, setti 15 HSK met og eitt þeirra var Íslandsmet. Aðrir ótaldir Íslandsmetshafar á síðasta ári voru þau Ísold Assa Guðmundsdóttir og Daníel Breki Elvarsson, bæði úr Umf. Selfoss.
Fjölmörg met þrátt fyrir færri mót
Metaskrár Héraðssambandsins Skarphéðins eru uppfærðar reglulega í öllum flokkum frá 11 ára aldri, bæði innan- og utanhúss. Einnig var afrekaskrá fyrir fatlaðra uppfærð.
Þrátt fyrir að fjölda móta hafi verið aflýst vegna samkomutakmarkana á síðasta ári voru óvenjumörg met slegin, eða samtals 159. Til samanburðar voru 145 met slegin árið 2019.
Fatlaðir settu tvö met, keppendur 11–22 ára settu 104 met, keppendur í karla- og kvennaflokkum settu fjögur met og keppendur í öldungaflokkum settu 49 met. Tíu þessara meta eru einnig landsmet í viðkomandi flokki.
Ólafur Guðmundsson, Umf. Selfoss, setti flest HSK met í öldungaflokkum, en hann setti 20 met á árinu í flokki 50-54 ára. Næst komu þau Fjóla Signý Hannesdóttir og Örn Davíðsson bæði í flokki 30-34 ára, en þau settu bæði fimm met í sínum aldursflokki.
Ólafía Ósk Svanbergsdóttir, Suðra, var sú eina sem setti HSK met í flokkum fatlaðra á árinu, en hún setti tvö HSK met í flokki F 35-38.
HSK metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK meta sem sett voru á síðasta ári, má nálgast á vef HSK.