Álfrún Diljá Kristínardóttir, Umf. Selfoss, tvíbætti Íslandsmetið í sleggjukasti 13 ára stúlkna á Slúttmóti Selfoss sem fram fór á Selfossvelli síðastliðinn fimmtudag.
Álfrún byrjaði á að kasta 37,86 m og bætti þar sitt eigið HSK met í 13 ára flokki, sem var 31,43 m. Hún kastaði næst 42,69 m og þá var Íslandsmetið fallið en hún bætti svo um betur og kastaði lengst 44,94 metra. Hún tvíbætti því Íslandsmetið og þríbætti sitt eigið héraðsmet.
Gamla Íslandsmetið var átta ára gamalt en það átti Fríða Björk Einarsdóttir, UFA, 40,44 m.
Álfrún Diljá á einnig HSK metin með 2 kg sleggju í 11 ára flokki og 12 ára flokki, en í fyrra kastaði hún 31,43 metra og hefur því bætt sig um rúmlega 13,5 metra á milli ára.