Hjólreiðakeppni KIA Gullhringurinn fer fram á Laugarvatni á morgun og annað kvöld. Keppnin er orðin ein sú lang stærsta á Íslandi en tæplega 900 keppendur hjóla af stað kl 18:00 inn í nóttina.
Keppnin var fyrst haldin árið 2012, fyrir fimm árum og hefur vaxið af krafti síðan og nokkurn veginn í takt við áhuga landsmanna á hjólreiðum.
Á morgun verður margt um að vera á Laugarvatni í aðdraganda keppninnar. Keppnin sjálf hefst svo klukkan 18:00 stundvíslega og verður þá ræst til austurs og hjóla allir keppendurnir frá Laugarvatni í átt að Efsta Dal og Úthlíð og þeir sem eru á þessum slóðum geta fylgst með ræsingunni við Laugarvatnsveg uppúr klukkan 18:00 en keppendur fara ansi hratt yfir. Skemmtileg hefð hefur verið að skapast fyrir því að sveitungar, sumarbústaðareigendur og tjaldbúar komi sér fyrir neðan við Laugarvatnsveginn og hvetji keppendur áfram.
Kanadíski hjólreiðamaðurinn Ryder Hesjedal verður meðal keppenda í Kia-gullhringnum á morgun, en hann sigraði meðal annars Giro d`Italia-keppnina árið 2012, en það er ein af þremur stærstu götuhjólakeppnum hvers árs og er samtals hjólað í 21 dag. Þá lenti hann í fimmta sæti í Tour de France árið 2010, en það er stærsta hjólakeppni ársins. Ryder kom til landsins fyrir viku og hefur verið að hjóla um fjöll og firnyndi og þeir sem fylgjast með Instagram svæðinu hans sjá að það fer ekkert á milli mála að hann skemmtir sér konunglega.
KIA Hringirnir hafa á mjög fáum árum orðið ein vinsælasta hjólreiðakeppni landsins. Keppnin er haldin á Laugarvatni og hjólað um margar þekktustu náttútuperlur Íslands um leið og hjólað er um þekktustu söguslóðir þjóðarinnar, Skálholt, Bræðratungu svo ekki sé nú minnst á Þingvelli. Vegfarendur í Uppsveitum Árnessýslu, nánar tiltekið á Laugarvatnsvegi, Biskupstungabraut, Reykjaheiði, Þingvallaleið og Lyngdalsheiði eru beðnir um að sýna tillitsemi og þeim fyrirfram þakkað af keppendum.
Mottó Gullhringsins er “Allir hjóla, allir vinna og allir velkomnir” og er hægt að velja sér vegalengd eftir getu hvers og eins úr þremur mismunandi keppnisstigum. Allt þekktasta hjólreiðafólk landsins hefur hjólað Gullhringinn og það sem er skemmtilegri er nýliðar í sportinu hafa notað Gullhringurinn sem fyrstu keppnina sína og þannig formlegu innkomu sína í sportið.