Selfyssingar unnu sannfærandi 3-0 sigur á KA í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Bakvörðurinn Andri Freyr Björnsson skoraði tvö marka Selfoss.
Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og hröð sóknarlínan reyndist KA mönnum skeinuhætt. Selfoss átti að fá víti á upphafsmínútunum þegar brotið var á Jóni Daða Böðvarssyni en lélegur dómari leiksins lét brotið fara framhjá sér eins og svo margt annað í leiknum.
Selfyssingar voru mun meira með boltann en fyrsta markið lét á sér standa. Biðin var hins vegar algjörlega þess virði því fyrsta mark leiksins, sem kom á 45. mínútu, var stórglæsilegt. Selfyssingar spiluðu boltanum á milli sín áður en hann barst á Andra Frey vinstra megin í teignum og hann kláraði færið frábærlega framhjá markmanni KA.
Staðan var því 1-0 í hálfleik og seinni hálfleikur var ekki nema tveggja mínútna gamall þegar Andri hafði komið Selfoss í 2-0. Boltinn barst þá til hans á fjærstöng eftir hornspyrnu og klafs í teignum og aftur skaut Rangæingurinn snyrtilega í fjærhornið framhjá markverðinum.
Eftir annað markið róaðist leikur Selfyssinga nokkuð og baráttan fór fram á miðsvæðinu, þar sem besti maður vallarins, Einar Ottó Antonsson, var eins og kóngur í ríki sínu.
Liðin áttu ekki margar álitlegar sóknir fyrr en á 65. mínútu að Viðar Örn Kjartansson fékk góða sendingu innfyrir og hann kláraði færið auðveldlega og veitti KA mönnum náðarhöggið. Viðar, sem er markahæsti leikmaður deildarinnar, átti fínan leik, var mjög hreyfanlegur, og gerði varnarmönnum KA lífið leitt í samvinnu við Jón Daða Böðvarsson.
Leikurinn fjaraði út eftir þriðja mark Selfoss en það breytti því ekki að sigurinn var sannfærandi og Jóhann Ólafur markvörður og varnarlína Selfoss áttu náðugan dag.
Eftir leikinn eru Selfyssingar áfram í 2. sæti deildarinnar með 13 stig, sex stigum á eftir ÍA og einu stigi á undan BÍ/Bolungarvík.