Alli Murphy í Selfoss

Murphy skrifar undir samninginn við Selfoss. Ljósmynd/Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við bandaríska miðjumanninn Alli Murphy og mun hún leika með liði félagsins út yfirstandandi keppnistímabil.

Murphy, sem er 25 ára gömul, kemur til Selfoss frá PEC Zwolle í hollensku úrvalsdeildinni og fór meðal annars með hollenska liðinu í bikarúrslit í vor. Hún hefur einnig spilað í 1. deildinni í Svíþjóð og verið á mála hjá Houston Dash og Washington Spirit í bandarísku atvinnumannadeildinni. Hún var valin tuttugasta í nýliðavalinu til Washington árið 2016 en hún spilaði með sterku liði Texas Tech í háskólaboltanum og var fyrirliði liðsins.

„Þetta er spennandi leikmaður, vinnusöm og fjölhæf með góða yfirsýn á vellinum. Hún er með góða reynslu og fær mjög góð meðmæli og á eftir að styrkja okkur á lokasprettinum. Við hlökkum til að sjá hana í Selfossbúningnum,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Fyrri greinFurðudýr á Kötlugrunni
Næsta greinSvartur uppáhellingur er allra meina bót