„Stemmningin er góð, það er spenningur og maður finnur að þetta er fyrsti alvöru leikurinn á tímabilinu og fyrsti Evrópuleikur Selfoss í 24 ár,“ segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta.
Á laugardagskvöld kl. 19:30 mun Selfoss mæta Klaipéda Dragūnas frá Litháen á sínum nýja heimavelli í Iðu í 1. umferð EHF Evrópubikarsins.
„Það vilja allir spila þennan leik og æfingarnar eru fínar. Við erum búnir að hafa þessa viku með allt liðið. Elvar var meiddur og Haukur úti með landsliðinu og svo kemur markmaðurinn nýr inn. Svo að við höfum þurft að fara í gegnum marga hluti. Maður reynir að hafa jafnvægi í vídeófundum og æfingum og álagi en við verðum klárir á laugardaginn,“ segir Patrekur ennfremur.
„Veit helling um það hvernig þeir spiluðu í fyrra“
Dragūnas varð Litháensku meistari á síðasta tímabili og því ljóst að um sterkan andstæðing er að ræða. Selfossþjálfarinn er búinn að kynna sér liðið vel.
„Ég veit helling um það hvernig þeir spiluðu í fyrra. Þeir eru nokkuð vel spilandi, með tvo mjög sterka menn á miðjunni og stóra vinstri skyttu sem er hörkusleggja. Ef það er sá sami og var í fyrra. Svo þekkum við línumanninn stóra og stæðilega sem spilar með landsliði Litháen. Þeir eru með hornamenn sem eru snöggir fram og markvörðurinn þeirra gefur góðar sendingar fram völlinn. Við þurfum ekki bara að spila góða vörn heldur líka passa að þeir hlaupi ekki yfir okkur. Þeir spila stundum sjö á sex og gera það vel, eru yfirvegaðir á boltann og við erum búnir að fara yfir það,“ segir Patrekur en bætir við að Litháarnir gætu sýnt eitthvað nýtt með nýjum leikmönnum.
„Allir klárir í þetta“
Selfyssingar hefja leik í Olísdeild karla þann 12. september og Patrekur segir það frekar fagnaðarefni en hitt að fá svona krefjandi verkefni á undirbúningstímabilinu.
„Það er stutt í Íslandsmót svo að við erum á góðum stað. Við byrjuðum um miðjan júlí og höfum átt gott undirbúningstímabil þó að okkur hafi gengið upp og ofan í æfingaleikjunum. En ég segi það sjálfur sem leikmaður að maður vill frekar spila alvöru leiki heldur en æfingaleiki. Það eru allir að bíða eftir því að þetta byrji, við erum í nýju húsi og það eru allir klárir í þetta og allir í standi. Miðað við hvernig þetta var í fyrra þá trúi ég ekki öðru en að fólk mæti á leikinn og það verði allt stappað. Vonandi náum við að mynda góða stemmningu í fullu húsi,“ sagði Patrekur að lokum.
Reiknað með 600 áhorfendum
Iða, hið nýja heimili handboltans á Selfossi, er ekki tilbúin að öllu leiti og hafa því verið settir upp bráðabirgða áhorfendapallar. Selfyssingar reikna með að selja 600 miða á leikinn og fer forsala fram í versluninni Baldvin&Þorvaldi. Miðaverð er 2.000 krónur og brýnt er fyrir áhorfendum að allir þurfa að hafa miða á leikinn, einnig börn og iðkendur.
Grill og gleði á leikdag
Á leikdag verður boðið upp á dagskrá fyrir árskortshafa Selfoss, grillað verður í Selinu á íþróttavellinum kl. 17:30 og þjálfarar Selfoss munu funda með stuðningsmönnum kl. 18:15. Hálftíma síðar verður gengið yfir í Iðu, en þar opnar húsið kl. 18:00 og opnað verður inn í sal kl. 18:45.