Allir erlendu leikmennirnir á Selfossi læra íslensku

Allir erlendir leikmenn í knattspyrnuliðum karla og kvenna hjá Selfossi fóru í íslenskukennslu á síðasta tímabili. Verkefnið reyndist vel og allir erlendir leikmenn sem verða hjá liðinu í ár fara líka í íslenskukennslu.

Fótbolti.net greinir frá þessu

„Ég var að útbúa kynningu fyrir erlenda leikmenn þegar hugmyndin vaknaði. Ég bar þetta undir framkvæmdastjórann og settum þetta inn í þessa kynningu og svo seinna inn í samninga við leikmennina,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfyssinga í samtali við Fótbolta.net.

„Leikmennirnir sjálfir gera sér ekki grein fyrir því í ferlinu hversu mikið þetta hjálpar þeim gagnvart liðsfélögunum, samfélaginu og sjálfum sér. Már Másson kennari og stórmeistari tók þetta verkefni að sér í fyrra og á heiður skilið fyrir frábæra kennslu.“

Erlendu leikmennirnir fara vikulega í íslensku tíma og síðan reyna þeir einnig fyrir sér í íslenskunni í kringum starfið hjá Selfossi.

„Við gerum þetta í ákveðin tímabil, tvisvar og svo einu sinni í viku,“ segir Gunnar um íslenskutímana. „Við stefnum á að byrja aftur núna í mars þegar allir eru búnir að koma sér fyrir. Við látum leikmennina þjálfa eða koma við á æfingum yngstu flokkana reglulega til að auka færnina og orðaforðann. Þar fá þau bestu æfinguna.“

Frétt fotbolti.net

Fyrri greinSveitarfélagið dæmt til að greiða Gámaþjónustunni skaðabætur
Næsta greinTryggvaskáli og Friðheimar í fremstu röð