22. Unglingalandsmót UMFÍ var formlega sett með glæsilegri mótssetningu á íþróttavellinum á Hornafirði í kvöld.
Hápunktur mótssetningarinnar var þegar keppendur á mótinu gengu undir fánum héraðssambanda sinna inn á völlinn. Það fór ekki framhjá neinum að Héraðssambandið Skarphéðinn á langflesta keppendur á mótinu en alls keppa 192 unglingar undir merkjum HSK á mótinu, eða 20 prósent allra þátttakenda.
Flutt voru ávörp og flutt tónlistaratriði auk þess sem landsmótseldurinn var tendraður. Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, heiðruðu samkomuna með nærveru sinni og Guðni var einn þeirra sem flutti ávarp við setninguna.
Á næsta ári verður Unglingalandsmótið haldið á Selfossi og á mótssetningunni í kvöld var það tilkynnt að mótið árið 2021 verður á Sauðárkróki og árið 2022 í Borgarnesi.
Hér að neðan eru myndir af keppendum HSK og USVS á mótssetningunni í kvöld.