Héraðssambandið Skarphéðinn mun halda fjölskylduvæna afmælishátíð á íþróttavallarsvæðinu á Selfossi á laugardag frá 13:00 – 16.00.
Afmælishátíðin er ætluð fyrir alla fjölskylduna þar sem lögð er áhersla á þátttöku barna og unglinga. Gestum býðst m.a. að prufa ýmsar íþróttagreinar sem stundaðar eru innan HSK, s.s., golf, glímu, fimleika og knattþrautir ýmis konar. Fjölskyldan getur svo keppt saman í nokkrum greinum, s.s. jurtagreiningu, boccia, körfubolta, upplestri og spretthlaupi.
Skarphéðinsmaðurinn Andrés Guðmundsson mun mæta með sína geysivinsælu skólahreystibraut og þar geta allir tekið þátt. Kvennahlaupið fer fram um allt land þennan dag og hlaupið á Selfossi verður við Byko kl. 13:00.
Ingó, sem er frægasta poppstjarna sunnlendinga um þessar mundir, mun koma fram og einnig Skoppa og Skrítla.
Einnig verður fimleikasýning og taekwondosýning á hátíðinni og Bændaglíma Suðurlands fer fram og þar munu tvö kvennalið keppa. Boðið upp á veitingar án endurgjalds frá sunnlenskum fyrirtækjum.
Sunnlendingar eru hvattir til að koma á fjölskylduvæna afmælishátíð og fagna 100 ára afmæli þessarra merku íþrótta- og æskulýðssamtaka sem starfa í Árnes- og Rangárvallasýslum.