Selfoss vann ÍR 27-26 í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í Hleðsluhöllinni á Selfossi í dag.
„Þetta var nákvæmlega eins og ég bjóst við. ÍR er með fantagott lið og þetta var alls ekki auðvelt verkefni, enda átti ég ekki von á því,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir leikinn. „Það er örugglega eitthvað sem þarf að laga fyrir næsta leikog alltaf einhver atriði sem maður finnur. Við mætum af fullum krafti á mánudaginn og auðvitað er markmið okkar að vinna þann leik.“
Lokakaflinn æsispennandi
Leikurinn var jafn framan af en Selfoss náði fjögurra marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks. ÍR skoraði hins vegar síðustu tvö mörkin fyrir leikhlé og staðan var 15-13 í hálfleik.
Selfoss hafði frumkvæðið lengst af seinni hálfleik en þegar tvær mínútur voru eftir jafnaði ÍR 26-26 og við tók æsispennandi lokakafli. Elvar Örn Jónsson skoraði sigurmark Selfoss þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum en ÍR skaut framhjá á lokasekúndunni úr síðustu sókn leiksins.
Elvar maður leiksins
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 9/3 mörk og Haukur Þrastarson skoruðu 7. Þeir skutu langmest Selfyssinga í kvöld, tóku samtals 25 skot en skotnýtingin hefur oft verið betri, sérstaklega hjá Hauki sem var með 58% skotnýtingu. Elvar var einnig stoðsendingahæstur, með 5 stoðsendingar og mjög öflugur í vörninni, ásamt þeim Hauki og Hergeiri Grímssyni. Sverrir Pálsson lét líka vel til sín taka varnarlega.
Alexander Egan skoraði 4 mörk, Nökkvi Dan Elliðason 3, Hergeir 2 og þeir Árni Steinn Steinþórsson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu sitt markið hvor.
Sölvi Ólafsson varði 12 skot í leiknum og var með 32% markvörslu.
Liðin mætast næst í Breiðholtinu á mánudagskvöld og þar geta Selfyssingar tryggt sér sæti í undanúrslitum. Ef ÍR sigrar verður oddaleikur á Selfossi á miðvikudagskvöld.