Þór jafnaði metin í einvíginu gegn Grindavík í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í körfubolta í kvöld. Eftir mikla rússíbanareið unnu Þórsarar á heimavelli, 98 – 89.
Þórsarar voru skrefi á undan í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 21-19. Heimamenn náðu síðan góðu taki á Grindvíkingum í 2. leikhluta og í hálfleik höfðu Þórsarar fjórtán stiga forskot, 54-40.
Í upphafi síðari hálfleiks náði Þór mest sautján stiga forskoti en síðan fór að halla undan fæti. Grindvíkingar fóru að spila vörn og komust aftur inn í leikinn en staðan að loknum 3. leikhluta var 69-65.
Gestirnir komust síðan yfir í upphafi 4. leikhluta, 72-76, og var þá farið að fara um margan Þorlákshafnarbúann en heimamenn voru minnugir þess að Þórsarar misstu fyrsta leik einvígisins frá sér á þessum tímapunkti.
En í kvöld lögðu Þórsarar ekki árar í bát heldur hertu róðurinn, Grindvíkingum til mikillar skapraunar. Heimamenn litu vel út á lokasprettinum og sigurinn í kvöld var sanngjarn. Leikur þrjú fer fram í Grindavík á fimmtudaginn.
Emil Karel Einarsson kom sterkur inn af bekknum hjá Þór og var stigahæstur með 18 stig líkt og Mike Cook. Tómas Heiðar Tómasson skoraði 17 stig, Nemanja Sovic og Ragnar Nathanaelsson 14, Baldur Þór Ragnarsson 13 og Halldór Garðar Hermannsson 4. Ragnar var frákastahæstur með 14 fráköst og Sovic var með 13 fráköst.