Allt í járnum í Set-höllinni

Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 5 mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Fram skildu jöfn, 27-27, í úrvalsdeild kvenna í handbolta í Set-höllinni Iðu á Selfossi í kvöld.

Þetta var hörkuleikur, jafn og skemmtilegur. Fram var skrefinu á undan á köflum í fyrri hálfleik en jafnt var á flestum tölum og staðan í hálfleik var 15-15.

Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik og náði mest þriggja marka forskoti en þegar rúmar tíu mínútur voru eftir jafnaði Fram 22-22. Eftir það var allt í járnum og lokakaflinn æsispennandi. Harpa Valey Gylfadóttir jafnaði 27-27 fyrir Selfoss á lokamínútunni og Cornelia Hermansson kórónaði góðan leik sinn og varði síðasta skot Framara.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7/2 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 6, Harpa Valey Gylfadóttir 5, Eva Lind Tyrfingsdóttir 3, Arna Kristín Einarsdóttir og Adela Jóhannsdóttir 2 og þær Hulda Dís Þrastardóttir og Inga Sól Björnsdóttir skoruðu 1 mark hvor. Cornelia varði 13 skot í marki Selfoss og var með 33,3% markvörslu.

Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 6 stig og Fram í 2. sæti með 10 stig.

Liðin mætast aftur í bikarkeppninni á Selfossi á mánudagskvöld og er ljóst að þar verður hart barist ef eitthvað er að marka frammistöðu liðanna í kvöld.

Fyrri greinVæri til í að vera Madonna
Næsta greinHamar fékk á sig 75 stig í fyrri hálfleik