Allt í skrúfuna á lokamínútunum

Ásgrímur Þór Bjarnason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyringar töpuðu gríðarlega naumlega gegn Höfnum í Reykjaneshöllinni í kvöld, þegar liðin mættust í A-riðli 5. deildar karla í knattspyrnu.

Stokkseyri fékk draumabyrjun en Aron Örn Þrastarson kom þeim yfir strax á 3. mínútu og um miðjan fyrri hálfleikinn bætti Ásgrímur Þór Bjarnason við marki.

Staðan var 0-2 í hálfleik en Höfnum tókst að jafna metin um miðjan seinni hálfleikinn. Stokkseyringar gáfust ekki upp, Aron Örn kom þeim aftur yfir á 84. mínútu og mínútu síðar misstu Hafnir mann af velli með rautt spjald.

Á lokamínútunum fór hins vegar allt í skrúfuna hjá Stokkseyringum. Tíu Hafnamenn jöfnuðu á 89. mínútu og tryggðu sér svo sigurinn á fimmtu mínútu uppbótartímans. Lokatölur 4-3.

Stokkseyri er áfram í 6. sæti riðilsins með 9 stig en Hafnir eru í 3. sæti með 13 stig.

Fyrri greinHéðan í frá liggur leiðin upp á við
Næsta greinKeahótel taka við rekstri Hótel Grímsborga