Íslandsmótið í höggleik hefst á Kiðjabergsvelli í Grímsnesi í dag en síðustu daga hafa mörg handtök verið unnin til að gera umgjörðina sem glæsilegasta.
„Þetta er einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn hefur verið í Árnessýslu og hér á bæ er mikil tilhlökkun,“ sagði Jóhann Friðbjörnsson, formaður Golfklúbbs Kiðjabergs, í samtali við sunnlenska.is.
Völlurinn er í frábæru standi og þeir kylfingar sem blaðamaður sunnlenska.is ræddi við á vellinum í gær spöruðu ekki jákvæð lýsingarorð á hann.
Uppgangurinn á Kiðjabergi hefur verið hraður en fimm ár eru síðan völlurinn stækkaði í 18 holur. „Þá gerðum við tíu ára áætlun um að fá öll helstu mótin hingað á völlinn en við erum búnir með þann lista á fimm árum. Það er auðvitað mikill heiður fyrir okkur að fá þetta stærsta mót sumarsins á völlinn til okkar og klúbbfélagar hafa verið duglegir að leggja hönd á plóg. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu á síðustu árum þá er klúbburinn skuldlaus og reksturinn allur í góðu lagi,“ segir Jóhann ennfremur.
Aðstaðan á Kiðjabergi var góð fyrir en í aðdraganda Íslandsmótsins er búið er að stækka bílastæði og plan við golfskálann, búa til æfingaflöt þar sem m.a. er hægt að æfa högg upp úr sandi. Þá hefur verið komið upp salernum víða um völlinn og aðstöðu fyrir myndatökumenn vegna beinnar útsendingar Sjónvarpsins um helgina.
Fyrstu keppendur voru ræstir út kl. 7:30 í morgun en 138 keppendur eru skráðir til leiks, 121 í karlaflokki og 17 í kvennaflokki. Að loknum fyrstu tveimur dögunum verður skorið niður í 72 keppendur í karlaflokki.
Fremstur sunnlenskra kylfinga á mótinu er Selfyssingurinn Hlynur Geir Hjartarson, sem leikur undir merkjum Golfklúbbsins Keilis. Hlynur mætir vel undirbúinn til leiks en sl. mánudag setti hann vallarmet á Kiðjabergi þegar hann lék hringinn á 72 höggum, einu yfir pari.
Þeir kylfingar úr sunnlenskum klúbbum sem keppa á mótinu Halldór X. Halldórsson, Snorri Hjaltason, Guðjón Baldur Gunnarsson, Sveinn Snorri Sverrisson, Hjalti Atlason og Gunnar Snær Gunnarsson úr Golfklúbbi Kiðjabergs, Þorsteinn Hallgrímsson og Þórður Ágústsson, Golfklúbbnum Tudda. Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu. Gunnar Marel Einarsson, Golfklúbbi Hveragerðis. Guðmundur Örn Guðmundsson, Hallsteinn Traustason og Sigurjón Sigmundsson, Golfklúbbi Öndverðarness. Ingvar Jónsson, Golfklúbbi Þorlákshafnar og Agnar Reidar Róbertsson, Golfklúbbnum Flúðum.
Sunnlenska.is mun fylgjast vel með frammistöðu sunnlensku kylfinganna á mótinu alla keppnisdagana fjóra. Þeir sem vilja fylgjast enn betur með geta fylgst með skori kylfinga á www.golf.is þar sem skorið er fært inn á þriðju til fjórðu hverri holu.