Íslandsmeistarar Selfoss töpuðu 33-35 í framlengdum leik gegn bikarmeisturum FH í Iðu á Selfossi í kvöld í meistarakeppni karla í handbolta.
FH-ingar eru því meistarar meistaranna þetta árið, en gestirnir byrjuðu betur í leiknum og höfðu yfir í leikhléi 14-12. Selfyssingar náðu undirtökunum í seinni hálfleik og lokakaflinn varð mjög spennandi. Selfoss hafði frumkvæðið en FH náði að jafna og tryggja sér framlengingu á lokasekúndunum, 29-29.
Framlengingin fór rólega af stað en FH var sterkara liðið í seinni hálfleik framlengingarinnar og tryggði sér tveggja marka sigur.
„Hefðum alveg viljað lyfta bikar“
„Þetta var skemmtilegur leikur, spenna, góð tilþrif og mistök. Allt það besta við handboltann,“ sagði Hergeir Grímsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „En þetta féll með þeim á lokakaflanum og auðvitað er það svekkjandi. Við hefðum alveg viljað lyfta bikar í kvöld.“
Hergeir segir Selfyssinga hafa spilað ágætlega þó alltaf sé eitthvað hægt að laga en leikurinn í kvöld gefi góð fyrirheit fyrir komandi keppnistímabil.
„Heilt yfir voru bæði lið að spila hörku handbolta. Vörnin var mjög þétt hjá okkur á köflum, Einar var góður í markinu og Sölvi átti góðar innkomur, sem er jákvætt. Við þurfum að klára færin okkar betur, ég og fleiri, og fá kannski aðeins meira flæði í sóknarleikinn. Fyrri hálfleikurinn varð oft eitthvað hnoð en við náðum að laga það í seinni hálfleik,“ sagði Hergeir ennfremur.
Atli og Haukur magnaðir í sókninni
Atli Ævar Ingólfsson og Haukur Þrastarson voru frábærir í sókninni hjá Selfyssingum í kvöld. Atli Ævar skoraði 8 mörk, eins og Hergeir en Haukur skoraði 7 mörk og sendi 8 stoðsendingar. Árni Steinn Steinþórsson skoraði 5 mörk og lét vel til sín taka í varnarleiknum, Nökkvi Dan Elliðason skoraði 2 og þeir Magnús Öder Einarsson, Guðni Ingvarsson og Alexander Már Egan skoruðu allir 1 mark.
Einar Baldvin Baldvinsson varði 9 skot í marki Selfoss og var með 27% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 2/1 skot og var með 18% markvörslu.