Í kvöld ræðst það hvort það verður lið Hamars eða lið FSu sem tryggir sér sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta á næstu leiktíð.
Liðin mætast í oddaleik í úrslitakeppni 1. deildar karla kl. 19:15 í Frystikistunni í Hveragerði.
Hamar sigraði örugglega á heimavelli í fyrsta leiknum og FSu hafði betur í leik tvö. Sá leikur var jafnari en sá fyrri, en FSu hafði undirtökin í síðari hálfleik og landaði góðum sigri í lokin.
Það er ljóst að körfuknattleiksunnendur munu fá hörkuleik í Frystikistunni í kvöld og fólki er ráðlagt að mæta snemma því bekkurinn verður örugglega þétt setinn í stúkunni. Liðin munu leggja allt undir í kvöld í baráttunni um úrvalsdeildarsætið.