Selfoss tekur á móti Stjörnunni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Miðjumaðurinn Jón Guðbrandsson segir Selfyssinga eiga harma að hefna.
„Þetta verður örugglega fjörugur leikur, þeir eru vanir að spila á gervigrasi en hafa ekki verið sterkir á útivelli þannig að ég hef góða tilfinningu fyrir þessu,“ sagði Jón í samtali við sunnlenska.is.
Liðin hafa mæst fjórum sinnum í deildarkeppni á síðustu árum, í 2. og 1. deild en Selfyssingar hafa aldrei náð að knýja fram sigur. Tvisvar hafa liðin gert jafntefli og tvisvar hefur Stjarnan unnið, síðast 6-1 í Garðabænum.
„Það er kominn tími til að breyta þessari tölfræði og við eigum harma að hefna frá síðasta leik,“ segir Jón sem hefur sýnt sínar bestu hliðar í fyrstu leikjum Íslandsmótsins. Í herbúðum Selfoss tala menn nú um Nýja-Jón.
„Já, ég er allt annar maður en ég var í fyrra og ég er búinn að finna mig vel í þessum fyrstu leikjum. Við erum reyndar allir búnir að spila vel og menn hafa verið tilbúnir að leggja sig fram,“ segir Jón og það leynir sér ekki að hann er í betra formi nú en í fyrra. „Í fyrra var ég ekki búinn að spila neitt að ráði í tvö ár og var eiginlega allt sumarið að koma mér almennilega í gang.“
Jón hefur nú spilað 26 leiki í efstu deild með Selfoss og Víkingi en fyrsta markið kom í leiknum gegn Haukum í síðustu umferð. „Það var ljúft að sjá hann í netinu og vonandi set ég annað í kvöld. Ég er í það minnsta alltaf tilbúinn að skora,“ segir Jón að lokum.