Kvennalið Selfoss lagði Þór/KA 4-2 í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum í dag. Selfoss varð í 3. sæti í deildinni sem er besti árangur liðsins.
„Fyrri hálfleikurinn var vondur en seinni hálfleikurinn frábær. Við sýndum flottan karakter að koma til baka eftir að hafa verið ömurlegar stóran hluta úr leiknum,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is í leikslok.
„Það var alveg slökkt á okkur á köflum, eins og við nenntum þessu ekki og þess vegna var það mjög ánægjulegt hvernig við komum til baka og kláruðum þetta vel á móti svona góðu liði. Við skoruðum þrjú mörk í seinni hálfleik og tryggðum okkur þriðja sætið,“ sagði Guðmunda sem innsiglaði sigur Selfoss með tveimur frábærum mörkum á síðustu þremur mínútum leiksins.
„Já, loksins fór þetta að vera sláin inn og stöngin inn hjá mér. Þetta er búið að vera frekar óheppilegt sumar hjá mér í markaskoruninni þannig að ég var ánægð með að klára sumarið með svona góðum mörkum. Leiðinlegt að að þau komu bara í seinustu leikjunum,“ sagði Guðmunda sem var ánægð með árangur liðsins í sumar.
„Nú er bara að toppa þennan árangur á næsta ári og stefna að einhverjum verðlaunum.“
Ekki með í fyrri hálfleik
Selfyssingar mættu ákveðnir til leiks í dag og fyrstu mínúturnar voru mjög fjörugar. Thelma Björk Einarsdóttir átti lúmskt skot á 5. mínútu sem Roxanne Barker varði í þverslána og fimm mínútum síðar kom Dagný Brynjarsdóttir Selfyssingum yfir. Hún labbaði þá í gegnum Þórsvörnina og lyfti boltanum glæsilega yfir Barker.
Eftir markið hættu Selfyssingar að spila fótbolta og Þórsarar tóku leikinn yfir. Sandra María Jessen var stórhættuleg í sókninni hjá Þór/KA og hún átti skot í stöngina á 29. mínútu. Nokkrum andartökum síðar brást Selfossvörnin og Klara Lindberg komst framhjá Chanté Sandiford og skoraði í tómt markið. Tveimur mínútum síðar var Sandra María nálægt því að bæta við marki og aftur á sömu mínútunni slapp hún ein innfyrir en afgreiðslan var slök og Sandiford átti ekki í neinum vandræðum með að komast í boltann.
Selfyssingar tóku því fagnandi þegar dómarinn flautaði til hálfleiks og þjálfarateymið gat núllstillt mannskapinn inni í klefa.
Glæsimörk frá Guðmundu í lokin
Það voru hins vegar norðankonur sem mættu ákveðnari til síðari hálfleiks og á fyrsta korterinu slapp Sandra María tvívegis innfyrir en Sandiford var á tánum í markinu. Á 60. mínútu varði hún svo frábærlega í þverslána, skot frá Andreu Mist Pálsdóttur. Þór/KA komst svo í 1-2 á 65. mínútu þegar Lillý Rut Hlynsdóttir skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu.
Þrátt fyrir að lenda undir og vera ekki sannfærandi í spilamennskunni fram að þessu þá hættu Selfyssingar ekki, heldur fundu leiðir til lausna. Á síðustu tuttugu mínútunum tók heimaliðið öll völd á vellinum. Roxanne Barker, markvörður Þórs/KA, bjargaði tvívegis glæsilega á 74. mínútu, fyrst varði hún skot frá Donna-Kay Henry í stöngina og Thelma Björk fylgdi eftir en Barker náði að koma fingurgómunum í boltann og skotið fór yfir.
Henry var hins vegar ekki hætt því aðeins mínútu síðar komst hún í svipað færi og skoraði af öryggi. Selfoss hélt áfram að sækja og á 87. mínútu slapp Guðmunda ein innfyrir og lagði boltann snyrtilega framhjá Barker. Fjórum mínútum síðar lét Guðmunda aftur vaða af vítateigslínunni og negldi knettinum í þverslána og inn.
Lokatölur 4-2 og Selfyssingar ljúka leik í 3. sæti Pepsi-deildarinnar. Liðið er með 36 stig og skoraði 41 mark og fékk á sig 19 og hefur aldrei náð betri árangri.