Selfoss vann sinn fyrsta leik í Bestu deild kvenna í knattspyrnu þetta sumarið í kvöld, þegar Tindastóll kom í heimsókn á Selfossvöll.
„Mér fannst við spila mjög vel, við fórum aðeins að sparka langt undir lokin en ég var ánægð með baráttuna í okkur og við fórum loksins að spila „okkar“ leik. Þannig að ég er bara ánægð og við vorum að standa okkur mjög vel,“ sagði Eva Lind Elíasdóttir, annar markaskorara Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Það blés reyndar ekki byrlega í upphafi því Tindastóll komst yfir með skallamarki eftir hornspyrnu á 13. mínútu. Þegar tuttugu mínútur voru liðnar hertu Selfyssingar tökin og stýrðu leiknum nánast til leiksloka.
Katla María Þórðardóttir jafnaði metin með skondnu marki á 36. mínútu þegar hún sendi boltann með jörðinni fyrir markið af vítateigshorninu og hann rúllaði í markið án þess að nokkur næði að snerta hann. Sjö mínútum síðar skoraði Eva Lind einkar glæsilegt skallamark eftir fyrirgjöf frá Barbáru Sól Gísladóttur.
Staðan var 2-1 í hálfleik og á 5. mínútu síðari hálfleiks gerðu Selfyssingar út um leikinn með þriðja markinu, sem kom úr ranglega dæmdri óbeinni aukaspyrnu inni í vítateig Tindastóls. Boltinn var lagður fyrir Kötlu Maríu sem þrumaði honum í fjærhornið.
Selfoss lyfti sér upp í 7. sæti deildarinnar en liðið er með 4 stig að loknum fjórum umferðum og mætir næst Keflavík á útivelli.