Selfyssingar luku fyrri umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld með sannfærandi 4-0 tapi gegn ÍA á Akranesi.
Fyrir leik hafði hvorugt liðið unnið leik síðan í maí en Skagamenn voru sterkari í kvöld og fögnuðu þegar upp var staðið. Selfyssingar hafa aðeins fengið tvö stig í síðustu sjö leikjum sínum og eru í 11. sæti deildarinnar, í fallbaráttu með Fram og Grindavík.
Nánast eina færi Selfyssinga í leiknum kom á 6. mínútu þegar Jon Andre Royrane slapp einn í gegn en markvörður ÍA náði að trufla hann svo ekkert varð úr sókninni. Annars stóluðu Selfyssingar á langa bolta fram völlinn sem skiluðu engu. Jón Daði Böðvarsson átti nokkur langskot í leiknum sem ekki voru til vandræða fyrir Skagamenn.
ÍA komst yfir á 13. mínútu leiksins eftir hornspyrnu og reyndist það eina mark hálfleiksins þrátt fyrir ágætar tilraunir Skagamanna.
Babacar Sarr fór meiddur af velli á 37. mínútu eftir höfuðhögg og Ingólfur Þórarinsson leysti hann af hólmi.
Yfirburðir Skagamanna héldu áfram í seinni hálfleik og þeir komust í 2-0 á 58. mínútu þegar vörn Selfoss opnaðist.
Það var ekki fyrr en á 77. mínútu að Selfyssingar sýndu lífsmark og þar var Jón Daði að verki með skot sem var varið og skalla í kjölfarið.
Á 81. mínútu komust Skagamenn í 3-0 og fimm mínútum síðar í 4-0 eftir snarpa sókn.