Selfoss tapaði illa í lokaumferð Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu þegar þær heimsóttu Val að Hlíðarenda. Valur hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn og lyfti meistarabikarnum að leik loknum.
Selfyssingar stóðu heiðursvörð í upphafi leiks þegar Íslandsmeistararnir gengu inn á völlinn. Selfoss byrjaði leikinn af krafti og sýndi Íslandsmeisturunum ekki frekari virðingu. Valskonur urðu hins vegar á undan að skora þegar fyrirgjöf frá hægri hafnaði í netinu. Leikurinn hélst áfram í jafnvægi eftir það en Selfyssingum gekk ekki vel að skapa sér færi. Á 24. mínútu slapp Brenna Lovera innfyrir en náði ekki góðu skoti, Valskonur sneru vörn í sókn, brunuðu upp völlinn og skoruðu 2-0.
Þá má segja að botninn hafi dottið algjörlega úr leik Selfyssinga sem misstu alla trú á verkefninu. Andleysið var algjört og Valur skoraði auðveldlega þrjú mörk til viðbótar á síðasta korterinu í fyrri hálfleik.
Staðan var 5-0 í hálfleik og þær urðu lokatölur leiksins. Seinni hálfleikurinn var algjörlega tíðindalaus, enda úrslitin ráðin.
Selfoss situr í 4. sæti deildarinnar með 25 stig en gæti misst Stjörnuna uppfyrir sig þegar lokaumferðinni lýkur á sunnudaginn.
Leikurinn í kvöld var kveðjuleikur Alfreðs Elíasar Jóhannssonar, sem segir nú skilið við Selfoss eftir að hafa þjálfað kvennaliðið undanfarin fimm ár.