Knattspyrnumaðurinn Andri Freyr Björnsson frá Hellu hefur samið við færeyska úrvalsdeildarliðið TB Tvøroyri og mun leika með eim á komandi keppnistímabili.
Hinn reyndi Páll Guðlaugsson þjálfar TB Tvøroyri en í ágúst síðastliðnum auglýsti liðið eftir íslenskum leikmönnum á Fótbolta.net en vefmiðillinn greindi frá þessum félagaskiptum í dag.
„Það er mikil ánægja hér í Tvøroyri með að fá íslenska leikmenn og ég vona að þeim gangi vel,“ sagði Páll við Fótbolta.net í dag.
Andri Freyr er 28 ára gamall vinstri bakvörður sem spilaði með uppeldisfélagi sínu, KFR, síðastliðið sumar en hann lék einnig lengi með Selfyssingum.