Selfyssingurinn Andri Hrafn Hallsson skrifaði um helgina undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild FH.
Andri Hrafn er 23 ára örvhentur hornamaður uppalinn á Selfossi. Hann hefur spilað stórt hlutverk í liði Selfyssinga síðustu ár en spilaði þó fyrri hluta tímabilsins 2012/2013 með liði Aftureldingar.
Á nýliðnu tímabili var hann fyrirliði Selfyssinga og var næst markahæsti leikmaður liðsins í deildinni, skoraði 53 mörk í 15 leikjum. Andri spilaði sem skytta upp alla yngri flokka og getur spilað bæði fyrir utan og í horninu.
„Ég var búinn að hugsa mér til hreyfings í sumar, enda búsettur í Reykjavík og í námi,“ segir Andri Hrafn. „Þegar FH hafði samband var ég strax áhugasamur enda eitt stærsta lið landsins. Í lokin var þetta ekki spurning og ég er bæði stoltur og gríðarlega spenntur fyrir því að vera hluti af liði sem kemur til með að berjast um alla titla á komandi tímabili. Það er þó ekki auðveld ákvörðun að yfirgefa Selfoss, og þakka ég öllum Selfyssingum fyrir samstarfið og óska þeim góðs gengis í vetur.“