Andri Már Óskarsson, Umf. Selfoss, setti HSK met í 1.500 m hlaupi innanhúss í flokki 11 ára pilta á 2. Nike móti FH sem haldið var í Kaplakrika síðastliðinn þriðjudag.
Andri Már hljóp á tímanum 5:38,57 mín og er hann fyrsti 11 ára pilturinn á sambandssvæði HSK til að hlaupa þessa vegalengd. Andri Már keppti í karlaflokki á mótinu, langyngstur, og varð í 19. sæti í hlaupinu.
Þetta er ekki eina metið sem Andri Már hefur sett síðustu daga því að á Stórmóti ÍR bætti hann héraðsmetið í fimmtarþraut 11 ára pilta innanhúss. Andri Már varð í 2. sæti í fimmtarþrautinni með 4.077 stig og bætti þar ársgamalt met Kristjáns Reynissonar, Umf. Þjótanda, um 1.011 stig. Hilmir Dreki Guðmundsson, Umf. Selfoss, bætti einnig árangur Kristjáns á mótinu í ár en hann varð í 4. sæti með 3.830 stig.
Í fimmtarþraut er keppt í kúluvarpi með 2 kg kúlu, 60 m hlaupi, hástökki, langstökki og 600 m hlaupi.