Andri Már í 5. sæti fyrir lokadaginn

Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu, er enn á meðal efstu manna fyrir lokadaginn á Íslandsmótinu í golfi sem fram fer á Garðavelli á Akranesi um helgina.

Andri Már lék hring dagsins á pari vallarins og lyfti sér upp í 5.-6. sætið, samtals á einu höggi yfir pari. Andri fékk þrjá skolla á fyrri níu holunum en paraði aðrar holur. Á seinni níu fékk hann hins vegar þrjá fugla á móti sex pörum.

Fannar Ingi Steingrímsson, Golfklúbbi Hveragerðis, er í 11.-12. sæti eftir þriðja hringinn. Hann spilaði á tveimur höggum yfir pari í dag, fékk þrjá fugla, fjóra skolla og paraði ellefu holur. Fannar er samtals á fimm höggum yfir pari.

Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, tók sig saman í andlitinu í dag eftir erfiðleika á fyrstu tveimur hringjunum. Hann lék á tveimur höggum yfir pari og lyfti sér upp í 26.-27. sæti, samtals á fjórtán höggum yfir pari.

Í kvennaflokki er Alexandra Eir Grétarsdóttir, Golfklúbbi Selfoss, í 17.-18. sæti, 25 höggum yfir pari en hún lék þriðja hringinn á tíu höggum yfir pari.

Mótinu lýkur á sunnudag.

Fyrri greinBerfótagarður opnaður á Engi
Næsta greinSelfyssingar aftur í bikarúrslitin