Andri Már jafnaði vallarmetið á Hlíðavelli

Andri Már Óskarsson á Íslandsmótinu á Hlíðavelli. Ljósmynd/seth@golf.is

Andri Már Óskarsson, Golfklúbbi Selfoss, lék frábært golf í dag á þriðja degi Íslandsmótsins í golfi sem fram fer á Hlíðavelli í Mosfellsbæ um helgina.

Andri Már jafnaði vallarmetið á Hlíðavelli og lék á 66 höggum, eða sex höggum undir pari. Hann fékk sjö fugla á hringnum og einn skolla. Andri Már lyfti sér upp um fjórtán sæti í dag og er nú í 7.-8. sæti en lokahringurinn verður leikinn á morgun.

Fleiri liðsmenn Golfklúbbs Selfoss léku gott golf í dag. Aron Emil Gunnarsson fór hringinn á fjórum höggum undir pari og er í 21.-22. sæti og Pétur Sigurdór Pálsson lék á tveimur höggum undir pari og er í 44.-48. sæti.

Eftir erfiða byrjun á mótinu lék gamla brýnið Hlynur Geir Hjartarsson annan hringinn í röð á pari vallarins og lyfti sér upp í 25.-31. sæti.

Í kvennaflokki lék Heiðrún Anna Hlynsdóttir sinn besta hring á mótinu í dag en hún spilaði á þremur höggum yfir pari og lyfti sér upp í 7. sætið.

Vegna samkomutakmarkana og tveggja metra reglunnar hvetur mótsstjórn Íslandsmótsins áhugafólk til þess að fylgjast með lokadegi mótsins í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu en útsendingin hefst klukkan 14:00 á morgun, sunnudag.

Það hafa skipst á skin og skúrir á mótinu um helgina. Hér er Andri Már fremstur í flokki. Ljósmynd/seth@golf.is
Fyrri greinÞrír ökumenn undir áhrifum í Veiðivötnum
Næsta greinÞrír mótorhjólamenn kærðir fyrir utanvegaakstur