Andri Már Óskarsson, Golfklúbbnum Hellu, er í 4-6. sæti eftir fyrsta dag Íslandsmótsins í golfi sem hófst á Garðavelli á Akranesi í morgun.
Andri Már spilaði fyrsta hringinn á einu höggi undir pari en hann fékk fjóra fugla á hringnum, einn skolla og einn skramba en paraði tólf holur.
Fannar Ingi Steingrímsson, Golfklúbbi Hveragerðis, byrjaði frábærlega á mótinu og fékk fimm fugla á fyrstu sjö holunum. Hann lék hins vegar níundu holuna á fjórum höggum yfir pari og féll niður listann. Að loknum fyrsta hring situr hann í 12.-16. sæti á tveimur höggum yfir pari.
Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, er í 39.-49. sæti. Hann lék fyrri níu holurnar á tveimur höggum yfir pari en á seinni níu fékk hann fjóra skolla og einn fugl og lauk leik á fimm höggum yfir pari.