Akureyramót UFA í frjálsum íþróttum fór fram á Akureyri um síðastu helgi og þar voru sett tvö HSK met.
Andri Már Óskarsson, Umf. Selfoss, bætti HSK metið í 11 ára flokki í 80 metra grindahlaupi með 76,2 cm grindum. Hann hljóp á 17,43 sek og var vindur +2,0. Gamla metið sem hann átti sjálfur, frá því í fyrra, var 20,28 sek. Andri Már vann fern gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun á mótinu en hann sigraði í 60 m hlaupi, 400 m hlaupi, hástökki og langstökki í flokki 10-11 ára pilta.
Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, bætti HSK metið í kringlukasti í 15 ára flokki með 600 gr kringlu. Hún kastaði lengst 40,81 metra og bætti sinn persónulega árangur um tæpa fjóra metra. Ragnheiður Guðjónsdóttir, Umf. Hrunamanna, átti gamla HSK metið, það var 37,80 metrar, sett árið 2016. Bryndís Embla vann tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun á mótinu en hún sigraði í kringlukasti 14-15 ára stúlkna og spjótkasti 16-17 ára stúlkna.
Umf. Selfoss átti einn fulltrúa til á mótinu en Anna Metta Óskarsdóttir vann fern gullverðlaun, þrenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Anna Metta sigraði í 800 m hlaupi, hástökki og langstökki í flokki 14-15 ára stúlkna og í 100 m grindahlaupi stúlkna 18 ára og eldri.
Þá sigraði Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, í langstökki karla 16 ára og eldri og hann krækti í bronsverðlaun í 200 m hlaupi karla.