Andvaraleysi í seinni hálfleik

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði 4-1 fyrir Dalvík/Reyni á útivelli í dag í 2. deild karla.

Fyrri hálfleikur var í járnum en Árborgarar fengu prýðisfæri á upphafsmínútum leiksins. Síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks þyngdist sókn Dalvíkur/Reynis en Árborgarar stóðu hana af sér og staðan var 0-0 í leikhléinu.

Árborgarar gerðust sekir um tvö varnarmistök á upphafsmínútum síðari hálfleiks og skyndilega var staðan orðin 2-0 fyrir heimamenn. Árborgarliðið hengdi haus við seinna markið og Dalvíkingar gengu á lagið og bættu við tveimur mörkum.

Árborgarliðið náði áttum á lokakaflanum og Kolbeinn Kristinsson klóraði í bakkann fyrir Árborg á lokamínútunum eftir sendingu frá Geir bróður sínum.

Þrátt fyrir tapið fór Árborg upp um sæti og er nú í 11. sæti deildarinnar án stiga.

Fyrri grein„Ekki að falla með okkur“
Næsta greinGóður sigur hjá Hamri