Miðvörðurinn Andy Pew hefur skrifað undir samning við Knattspyrnufélag Árborgar um að leika með félaginu í 2. deild karla í sumar.
Pew er þrítugur Englendingur en hann lék með liði Selfoss í 2. deildinni 2006-2007. Pew hóf ferill sinn hjá Everton og þaðan lá leið hans til Tranmere Rovers, Chester City og Cammell Laird áður en hann gekk í raðir Selfoss.
Eftir að Pew hætti með Selfyssingum lék hann með liði Colwyn Bay í Wales sumarið 2009 en sneri aftur til Íslands í fyrra.
„Ég þekki Andy vel frá því hann lék með Selfossi sumarið 2007. Þar var hann klárlega einn af lykilmönnum Selfossliðsins sem fór upp úr 2. deildinni þetta sumar. Hann styrkir hópinn hjá okkur töluvert mikið og okkur veitir ekki af því. Við þurfum að styrkja leikmannahópinn fyrir baráttuna í 2. deildinni. Hún er mjög erfið og við munum koma til með að berjast fyrir lífi okkar í deildinni,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.