Bikarmót IFBB í fitness, vaxtarækt og módelfitness fór fram um síðustu helgi í Háskólabíói þar sem um níutíu keppendur kepptu.
Sunnlendingar voru sigursælir á mótinu en Hvergerðingurinn Aníta Rós Aradóttir og Stokkseyringurinn Ingi Sveinn Birgisson gerðu sér lítið fyrir og urðu bikarmeistarar í sínum flokk og heildasigurvegarar í lokin.
Á mótinu var keppt í sex keppnisgreinum og í lokin kepptu sigurvegarar úr flokkunum um heildartitil hverrar keppnisgreinar. Aníta Rós varð heildarsigurvegari í módelfitness eftir jafna keppni við Aðalbjörgu Örnu G Smáradóttur. Aníta hefur keppt í fitness síðan 2012 og keppti meðal annars á Heimsmeistaramótinu í Búdapest helgina áður svo ekki var mikil hvíld á milli móta. Kærasti Anítu, Elmar Eysteinsson náði einnig frábærum árangri á bikarmótinu um helgina og náði 3. sæti í Fitness karla.
Ingi Sveinn var að keppa á sínu fyrsta bikarmóti en hann byrjaði á því að vinna fitness karla unglingaflokkinn og hafði svo betur gegn Sveini Má Ásgeirssyni sem vann Fitness karla í heildarflokknum.
Ingi og Aníta voru í viðtali í Sportþættinum á Suðurland FM í gærkvöld sem má heyra hér að neðan: