Árborg og Álftanes mættust í kvöld í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossi. Lokatölur urðu 2-2 eftir hörkuleik.
Álftanes komst yfir strax á 6. mínútu en þremur mínútum síðar jafnaði Eiríkur Raphael Elvy úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Hartmanni Antonssyni. Árni Páll Hafþórsson kom Árborg svo yfir með skallamarki á 22. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik.
Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleiknum en dæmið snerist við í seinni hálfleik þar sem Álftnesingar voru mun ákveðnari. Þeir byrjuðu strax á pressu og uppskáru mark á 48. mínútu. Gestirnir voru nær því að skora sigurmarkið en Árborgarar héldu haus og jafntefli varð niðurstaðan.
Árborg er í 3. sæti riðilsins með 2 stig en Álftanes fór á toppinn í riðlinum og er með 4 stig.