Hvergerðingurinn Anna Guðrún Halldórsdóttir, Lyftingafélaginu Hengli, gerði sér lítið fyrir og landaði Evrópumeistaratitli öldunga í ólympískum lyftingum á Evrópumeistaramóti Masters í Alkmaar í Hollandi í gær.
Árangur Önnu Guðrúnar var heldur betur eftirtektarverður því hún setti nýtt heims- og Evrópumet í snörun í 81 kg flokki Masters 50 þegar hún snaraði 62 kg og hún jafnaði síðan heimsmetið í jafnhendingu með 80 kg lyftu og bætti þar með Evrópumetið í hennar aldurs- og þyngdarflokki um 2 kg. Þetta skilaði Önnu Guðrúnu 142 kg samanlagt sem 4 kg meira en gildandi Evrópumet og 2 kg meira en gildandi heimsmet í samanlögðum árangri. Anna Guðrún setti því tvö heimsmet og þrjú Evrópumet á sínu fyrsta alþjóðlega móti og náði öllum sínum lyftum gildum.
Anna Guðrún á alls ekki langan lyftingaferil að baki en tók hún þátt á fyrsta mótinu sínu á Haustmóti LSÍ sem haldið var á Selfossi 2020 og náði þar 50 kg í snörun, 68 kg í jafnhendingu og þá með 118 kg í samanlögðu. Þetta þýðir að Anna hefur hækkað samanlagðan árangur sinn á móti um 24 kg á einu ári sem er gífurlega góður árangur.
Frá þessu er greint á Facebooksíðu Lyftingasambands Íslands og hér er hægt að horfa á mótshluta Önnu Guðrúnar.