Lyftingakonan Anna Guðrún Halldórsdóttir var útnefnd íþróttamaður Hveragerðis árið 2024 við hátíðlega athöfn í Listasafni Árnesinga síðastliðinn sunnudag.
Anna Guðrún keppir í ólympískum lyftingum í 87 og +87 kg flokki 55-59 ára. Á Evrópumeistaramótinu í Haugasundi í Noregi í júní vann hún gullverðlaun og setti heimsmet í sínum flokki. Þá keppti hún á heimsmeistaramóti í Finnlandi í september þar sem hún vann gullverðlaun, ásamt því að setja heimsmet.
Anna Guðrún á í dag þrjú heimsmet í sínum aldursflokki en hún setti tíu slík á árinu, ásamt tólf Evrópumetum og að auki er hún handhafi 39 Íslandsmeta.
Alls voru sex íþróttamenn tilnefndir í kjörinu en auk Önnu Guðrúnar voru það þau Rakel Rós Guðmundsdóttir badmintonkona, Kristján Valdimarsson blakmaður, Lúkas Aron Stefánsson körfuboltamaður, Óliver Þorkelsson knattspyrnumaður og Eric Máni Guðmundsson motocrossmaður.
Að auki voru veittar viðurkenningar til þeirra Hvergerðinga sem léku landsleiki á árinu 2024, unnu Íslandsmeistaratitla og eða bikarmeistaratitla.
Við athöfnina fluttu Marta Rut Ólafsdóttir formaður menningar-, atvinnu- og makaðsnefndar og Pétur Georg Markan bæjarstjóri ávörp og Marína Ósk Þórólfsdóttir söng fyrir viðstadda. Þá veittu nefndarmenn menningar-, atvinnu- og markaðsnefndar viðurkenningar til íþróttafólksins.