Anna Íslandsmeistari í spjótkasti

Anna Pálsdóttir, HSK/Selfoss, tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í spjótkasti kvenna á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum í dag.

Anna kastaði 38,16 m í fyrstu tilraun og dugði það henni til sigurs.

Fleiri keppendur frá HSK/Selfoss komust á verðlaunapall. Fjóla Signý Hannesdóttir vann til tveggja verðlauna. Hún varð önnur í 100 m grindahlaupi kvenna á 15,01 sek og þriðja í langstökki með stökk upp á 5,26 m

Ólafur Guðmundsson tryggði sér silfurverðlaun í 110 m grindahlaupi karla, hljóp á 16,09 sek.

Aron Kárason varð þriðji í hástökki þegar hann stökk 1,82 m en bróðir hans, Anton Kári, varð fimmti með stökk upp á 1,72. Rúnar Hjálmarsson fór yfir sömu hæð og varð sjötti.

Haraldur Einarsson varð annar í 400 m hlaupi karla á 50,59 sek. Hann komst einnig í úrslit í 100 m hlaupi og hafnaði þar í 7. sæti á tímanum 11,451 sek.

Dagur Fannar Magnússon varð fjórði í sleggjukasti, kastaði 40,61 m og Þórhildur Helga Guðjónsdóttir varð fimmta í 100 m hlaupi kvenna, hljóp á 13,13 sek.

Fyrri greinSíðasta skurðanefndin skorin niður
Næsta greinFeðgar sýna á Gónhól